Ranieri, sem líklega er þekktastur fyrir að gera Leicester að Englandsmeistara árið 2016, vakti fyrst athygli þegar hann stýrði Cagliari úr C-deild og upp í efstu deild á árunum 1988-1990, og eftir langan þjálfaraferil og viðkomu hjá fjölda stórliða sneri hann aftur til Cagliari fyrir hálfu ári síðan.
Ítalinn hélt ekki aftur af tilfinningum sínum í gær, þegar ljóst varð að Cagliari kæmist aftur í deild þeirra bestu, og leyfði tárunum að flæða enda afrekið mikið.
Look at the pure passion from Claudio Ranieri as Cagliari secure promotion to the Serie A... incredible. pic.twitter.com/1AZGWiEnh5
— EuroFoot (@eurofootcom) June 11, 2023
Cagliari hafði slegið út Parma í undanúrslitum umspils um sæti í A-deild, og vann svo Bari samanlagt 2-1 í úrslitum umspilsins.
Það gat þó ekki tæpara staðið að Cagliari færi upp. Liðið þurfti sigur í gær á útivelli, eftir 1-1 jafntefli í fyrri leiknum, því ef jafntefli hefði orðið niðurstaðan hefði Bari farið upp út af því að liðið endaði ofar í stöðutöflunni.
Sigurmark Cagliari kom ekki fyrr en á fjórðu mínútu uppbótartíma þegar Leonardo Pavoletti, sem Ranieri var nýbúinn að skipta inn á, skoraði.
Verona sendi Spezia niður
Cagliari tekur þar með sæti Spezia sem féll niður í B-deild í gær eftir sérstakan umspilsleik við Hellas Verona.
Spezia hafði endað fyrir ofan Verona í A-deildinni, hvort sem horft er til markatölu eða innbyrðis úrslita, en nýjar reglur tóku gildi í vetur varðandi lið sem verða jöfn að stigum í 17. og 18. sæti. Nýju reglurnar þýddu að liðin þurftu að mætast á hlutlausum leikvangi í einum úrslitaleik um áframhaldandi veru í A-deildinni, og Verona vann 3-1 þar sem öll mörkin komu í fyrri hálfleik.