Sport

Enginn unnið fleiri risa­mót en Djoko­vic

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sigrinum fagnað.
Sigrinum fagnað. EPA-EFE/CHRISTOPHE PETIT TESSON

Novak Djokovic varð í dag sigursælasti karlmaður í sögu tennis, allavega þegar kemur að risamótum í þeirri mynd sem við þekkjum þau í dag. Hann vann sitt 23. risamót þegar hann bar sigur úr býtum á franska opna.

Fyrir mót helgarinnar var ljóst að Djokovic gæti slegið Rafael Nadal þar sem báðir höfðu unnið 22 risamót en Spánverjinn dró sig út úr Opna franska vegna meiðsla.

Það gaf öðrum keppendum byr undir báða vængi þar sem Nadal er þekktur sem „Konungur leirsins“ en Opna franska er spilað á leir og hefur hann unnið mótið 14 sinnum á ferli sínum.

Djokovic, sem varð 36 ára í síðasta mánuði, nýtti sér þetta og tryggði sér sinn 23. risatitil á ferlinum eftir öruggan sigur á Norðmanninum Casper Ruud í úrslitum.

Eftir smá hikst í upphafi leiks þá kláraði Djokovic fyrsta sett á endanum með minnsta mun áður en hann vann annað sett 6-3 og þriðja sett 7-5.

Þetta er hans þriðji sigur í París en hann vann mótið 2016 og 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×