Í umfjöllun Guardian um málið kemur fram að samtök sem kenni sig við Frelsun Rússlands (e. The Freedom of Russia Legion) hafi lýst ábyrgð á árásunum. Réðust þau yfir landamærin frá Úkraínu og á bæina.
Samtökin hafa það að yfirlýstu markmiði sínu að frelsa Rússland undan stjórn Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta. Breski miðillinn segir að auk samtakanna hafi hópur rússneskra sjálfboðaliða einnig tekið þátt í árásunum.
Ekki er ljóst á þessum tímapunkti hversu margir hafa særst eða fallið í árásunum. Í umfjöllun breska miðilsins kemur fram að myndbönd frá landamærabænum Grayvoron bendi til að mannfall hafi orðið.
Jafnframt er fullyrt í umfjöllun Guardian að bæði úkraínsk og rússnesk stjórnvöld hafi staðfest að barist hafi verið við landamærin. Erlendum fjölmiðlum hefur ekki tekist að staðfesta hvort að eiginleg landtaka hafi átt sér stað líkt og rússnesku samtökin fullyrða.
Í tilkynningu á samfélagsmiðlum frá samtökunum, sem beint er til rússneskra borgara, segjast samtökin vera hliðholl Rússum. „Við erum Rússar líkt og þið,“ segir í tilkynningunni. Þar er fullyrt að markmiðið sé að binda enda á einræði í landinu.
Markmiðið sé að dreifa athyglinni
Í umfjöllun breska miðilsins kemur fram að neyðarástandi hafi verið lýst yfir af héraðsstjórn í Belgorod héraði. Haft er eftir héraðsstjóra að rússneski herinn muni skerast í leikinn vegna árásanna.
Þá kemur fram í tilkynningu frá rússneskum stjórnvöldum að Pútín Rússlandsforseta hafi verið gert viðvart um árásirnar. Stjórnvöld telji að árásirnar séu gerðar með því markmiði að beina athyglinni frá hörðum bardögum Úkraínumanna og Rússa í Bakhmut borg í Úkraínu.
Úkraínsk stjórnvöld hafa þvertekið fyrir að tengjast hópunum með nokkrum hætti. Í yfirlýsingu stjórnvalda segir að hóparnir starfi sjálfstætt, án nokkurra tenginga við úkraínska herinn.
Harðir bardagar hafa geysað í Bakhmut undanfarnar vikur og mánuði. Leiðtogi rússneska Wagner málaliðahópsins, Yevgeny Prigozhin, fullyrti um helgina að Bakhmut hefði fallið í hendur Rússa. Borgin yrði því afhent rússneska hernum fyrir næstu mánaðarmót. Úkraínumenn segja bardaga enn standa yfir um borgina.