Þetta kemur fram í svari brasilísku alríkislögreglunnar við fyrirspurn Vísis. Samkvæmt opinberum gögnum verður Sverrir Þór, betur þekktur sem Sveddi tönn, leiddur fyrir dómara þann 14. júní næstkomandi.
Tæpar sex vikur eru nú liðnar frá því Sverrir Þór var handtekinn á heimili sínu í Rio de Janeiro í umfangsmiklum aðgerðum brasilísku lögreglunnar í samvinnu við meðal annars íslensku lögregluna. Hann er talinn annar tveggja höfuðpaura glæpasamtaka. Hinn, ítalskur karlmaður, var handtekinn í samtíma aðgerðum í brasilísku borginni Bahia.
Í tilkynningu brasilísku alríkislögreglunnar kom fram að aðgerðirnar hafi snúið að því að uppræta glæpasamtök sem hafa sérhæft sig í peningaþvætti og fíkniefnaviðskiptum.
Sverrir Þór er grunaður um að vera leiðtogi annars tveggja smyglhringja sem höfðu mesta starfsemi í borgunum Rio de Janeiro, Rio de Janeiro do Norte og Sao Paulo.
Alls voru 33 handteknir í sex fylkjum Brasilíu. Flestir í borginni Sao Pauo, eða ellefu talsins. Þá var framkvæmd húsleit og haldlagning á 49 stöðum í níu fylkjum, þar af þrettán í Sao Paulo. Alls tóku 250 lögreglumenn þátt í aðgerðunum.
Bankareikningar voru frystir hjá 43 einstaklingum og hald lagt á 57 húseignir, bifreiðar og báta. Einnig voru haldlögð 65 kílógrömm af kókaíni, 225 kíló af kannabisefnum, skartgripi og vopn.
Fyrir utan smygl á fíkniefnum eru Sverrir og aðrir sem handteknir voru grunaðir um peningaþvætti. Viðurlög eru allt að 40 ára fangelsi.
Framsal ekki möguleiki
Að sögn Thiago Giavarotti, yfirlögregluþjóns Policia Federal, voru margir farsímar haldlagðir við rannsóknina.
„Rannsókninni mun væntanlega ljúka um miðjan júlí á þessu ári, en það á enn eftir að yfirfara símagögn.“
Hann segir Sverri Þór hafa kosið að nýta stjórnarskrárbundinn rétt sinn til þess að þegja við yfirheyrslur. Hann er eini Íslendingurinn sem er til rannsóknar vegna málsins. Líkt og áður hefur komið fram var annar Íslendingur til rannsóknar en hann lést úr krabbameini fyrr á árinu.
Þá segir Giavarotti að ekki sé möguleiki á að Sverrir Þór verði framseldur til Íslands. Ástæðan sé sú að hann hafi eignast barn í Brasilíu.
„Í slíkum tilfellum leyfa okkar lög ekki slíkt framsal.“
Þá kemur fram að verði Sverri Þór ákærður þá verði það að öllum líkindum fyrir fíkniefnasmygl og peningaþvætti.
Að sögn Giavarotti liggja ekki fleiri upplýsingar fyrir um rannsóknina, eða þátt Sverris í málinu, að svo stöddu.