Sveindís Jane var í byrjunarliði Wolfsburg í dag sem er í efsta sæti þýsku deildarinnar en Freiburg í sjötta sæti. Það blés ekki byrlega fyrir Freiburg í upphafi leiks í dag því strax á 4. mínútu skoraði Lisa Karl sjálfsmark og Wolfsburg komið í forystuna.
Freiburg tókst þó að jafna metin fyrir lok fyrri hálfleiks þegar Janina Minge skoraði og staðan 1-1 í hálfleik.
Sveindís Jane var tekin af velli í hálfleik og í síðari hálfleik tryggðu liðsfélagar hennar Wolfsburg nokkuð öruggan sigur. Rebecka Blomqvist kom Wolfsburg í 2-1 á 58. mínútu og Alexandra Popp bætti þriðja markinu við sex mínútum fyrir leikslok. Á 89. mínútu gulltryggði Dominique Janssen Wolfsburg síðan sigurinn þegar hún skoraði úr vítaspyrnu og 4-1 sigur staðreynd.

Wolfsburg er því þýskur bikarmeistari í knattspyrnu en leikurinn í dag var vel sóttur en rúmlega 40.000 áhorfendur voru á pöllunum.