Sveitarstjórn Mýrdalshrepps staðfesti á fundi sínum í dag tímabundna ráðningu Nicole og á vef Mýrdalshrepps segir að hún muni taka við starfinu í byrjun júní.
Nicole er menntuð í kennslufræðum og hefur langa reynslu af leikskólastörfum. Hún er með B.Ed. gráðu í leikskólakennarafræðum og M.Ed. gráðu í náms- og kennslufræði. Hún vann við ýmis störf á leikskólanum Múlaborg á árunum 2000 til 2009. Þá fór hún yfir á leikskólann Ösp í Fellahverfinu og var þar aðstoðarleikskólastjóri í tvö ár og síðan leikskólastjóri í fimm ár frá 2011 til 2016.
Nicole var alþingismaður fyrir Bjarta framtíð á árunum 2016-2017 og verkefnastjóri hjá þjónustumiðstöð Breiðholts á árunum 2018-2021.
Frá árinu 2021 hefur hún gegnt stöðu forstöðumanns Fjölmenningarseturs en hún var skipuð af Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, til fimm ára. Nicole mun ekki sitja út fimm ára tímann þar sem Fjölmenningarsetur var lagt niður og hlutverk þess fært undir Vinnumálastofnun þann 23. apríl síðastliðinn.