Greint var frá því í morgun á Vísi að Hvalur hf. hafi á árunum 2012 til 2021 tapað um þremur milljörðum króna á hvalveiðum sínum. Það má lesa út úr samantekt Gæðaendurskoðunar á ársreikningum Hvals tíu ár aftur í tímann.
Katrín Oddsdóttir, lögmaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir þær upplýsingar mikilvægar í umræðunni um hvalveiðar.
„Ég held að þessi gögn um þetta rosalega tap á hvalveiðum sýni þessi mál í alveg nýju ljósi. Af því þarna eru rökin um að þetta sé eitthvað sem er gert í hagnaði farin út af borðinu. Auðvitað má Kristján Loftsson sólunda sínu fé eins og hann vill, það er svolítið spes samt að hans hluthafar nenni að sitja undir þessu, en það er samt í raun og veru íslenska þjóðin sem þarf að spyrja sig hvort við séum tilbúin til þess að taka þessa áhættu sem felst í hvalveiðum fyrir okkar orðspor og sérstaklega í ljósi þess að við erum með alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum.“
Sextíu milljarða kredit í loftslagsbókhaldinu
Þar vísar Katrín til þeirrar staðreyndar að stórhveli binda gríðarlegt magn koltvísýrings, einfaldlega með því að vera til. Þannig segir í skýrslu sem unnin var fyrir sjóðinn að þegar kemur að bindingu koltvísýrings sé einn stór hvalur ígildi þúsunda trjáa. Þannig sé fjárhagslegt gildi hvers hvals að minnsta kosti tvær milljónir dala, eða um 275 milljónir króna.
„Þegar Kristján er að taka þá ákvörðun um að drepa 144 hvali, eins og í fyrra, þá er það samkvæmt tölum, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur verið að leggja til, um það bil sextíu milljarða króna skuld sem myndast í okkar loftslagsbókhaldi. Þannig að ég held að ef við tökum þetta saman þá sé þetta orðið ansi dýrt áhugamál hjá einum karli og ég held að við verðum bara að hafa hugrekki, og okkar stjórnvöld, til að stoppa þetta umsvifalaust í ljósi þessara nýju upplýsinga,“ segir hún.
Þá segir Katrín að nauðsynlegt sé að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra taki tillit til þessara upplýsinga við ákvarðanatöku um mögulega afturköllun veiðileyfis Hvals hf.
„Nú er dómaframkvæmdin að þróast þannig alþjóðlega að öllum stjórnvöldum ber rosalega rík skylda til að taka loftslagsmál inn í sínar ákvarðanir, þannig að það er ekki nóg að hugsa bara eitthvað: „Við erum að spá í stöðva hvalveiðar seinna, við ætlum að leyfa karlinum að fara út aftur.“ Nú þarf hún hreinlega að horfa á þessar tölur og þessa stóru mynd til þess að vera réttu megin við línuna í sinni ákvörðun,“ segir hún.
Ekki hægt að afturkalla en framhaldið í lausu lofti
Svandís sagði á dögunum að ekki væri hægt að afturkalla veiðileyfi Hvals hf. fyrir núverandi vertíð. Núverandi reglugerð um hvalveiðar renni hins vegar út eftir þetta veiðiár, og hún segir góðan rökstuðning þurfa til þess að halda veiðunum áfram.
„Til þess að halda áfram hvalveiðum þá þarf að rökstyðja það mjög vel. Nú erum við að viða að okkur gögnum sem lúta að dýravelferð, gögnum sem lúta að hlutverki hvala í vistkerfum og áhrif veiðana á loftslagsmál. Við erum að viða að okkur gögnum varðandi efnahagsleg áhrif af hvalveiðum. Þannig að í þessu eins og öðru vil ég undirbyggja mína ákvörðun mjög vel og ég hef sagt það áður að sönnunarbyrðin hvílir á þeim sem vilja halda þessu áfram.“