Rooney skrifaði pistil fyrir The Times þar sem hann veltir fyrir sér útkomu leiksins.
Real Madrid vann Meistaradeildina á síðustu leiktíð og hefur þegar slegið út tvö ensk lið í útsláttarkeppninni í ár. Liverpool í sextán liða úrslitum (6-2 samanlagt) og Chelsea í átta liða úrslitunum (4-0) og er þar með tíu mörk skoruð gegn aðeins tveimur fengnum á sig.
Rooney er sannfærður um að varnarmenn Real Madrid muni ekki ráða við Erling Haaland og að Norðmaðurinn nái hefndum gegn spænska stórliðinu.
Fyrsta setningin í pistli Rooney hefur vakið talsverða athygli.
„Manchester City mun ekki bara vinna Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildarinnar, því þeir munu rústa þeim,“ skrifaði Wayne Rooney.
„Auðvitað gæti ég haft rangt fyrir mér. Það er ekkert lið betra að stinga upp í þig en Madridarlið Carlo Ancelotti í Meistaradeildinni. Ég held bara að City-menn séu svo góðir að þeir séu á öðru stigi en Spánverjarnir,“ skrifaði Rooney.
Manchester City er á góðri leið með að vinna þrennuna á tímabilinu. Liðið er komið á toppinn í ensku úrvalsdeildinni og í úrslitaleik enska bikarsins á móti Manchester United. Manchester United vann þrennuna 1998-99 og ekkert lið hefur náð að leika það eftir.
"Manchester City will not just beat Real Madrid in their Champions League semi-final they ll blow them away" | @WayneRooney https://t.co/V0yhTJoYHR
— Times Sport (@TimesSport) May 7, 2023