Almenningur í landinu er afar óánægður með fyrirætlanir stjórnvalda um að hækka eftirlaunaaldurinn og var boðað til mótmælafunda víða um land í gær. Innanríkisráðherrann Gérald Darmanin segir að afar sjaldgæft sé að svo margir lögreglumenn slasist á einum degi í landinu en tæplega þrjúhundruð mótmælendur voru handteknir.
Hefð er fyrir mótmælum á fyrsta maí í Frakklandi en eftirlaunamálið hefur blásið enn meiri glæðum í mótmælendur þetta árið og eitthvað var um eldsprengjur og flugelda, þótt flestir mótmælenda hafi farið fram með friðsömum hætti. Lögregla beitti táragasi og öflugum vatnsbyssum á fólkið en óljóst er hversu margir mótmælendur eru sárir.
Lögregla telur að um 780 þúsund manns hafi mótmælt í gær, þar af um 112 þúsund í höfuðborginni París. Forsprakkar verkalýðsfélaganna segja hinsvegar að tölurnar séu þrisvar sinnum hærri.