Albert og félagar sitja í öðru sæti deildarinnar og með sigri hefði liðið tyllt sér á toppinn.
Þeir sluppu þó með skrekkinn í dag því heimamenn í Sudtirol skoruðu það sem hefði verið eina mark leiksins á 55. mínútu, en eftir skoðun myndbandsdómara var markið dæmt af.
Niðurstaðan varð því markalaust jafntefli og Albert og félagar sitja enn í öðru sæti deildarinnar. Genoa er með 67 stig þegar liðið á aðeins þrjá leiki eftir á tímabilinu, en tvö efstu liðin fara beint upp.
Genoa er með sex stiga forskot á Bari sem situr í þriðja sæti og því ætti einn sigur í síðustu þremur leikjum tímabilsins að duga til að tryggja liðinu sæti í efstu deild. Genoa og Bari mætast einmitt í lokaumferðinni og Albert og félagar vilja líklega gjarnan vera búnir að tryggja sér sætið fyrir þann leik.