Þetta hefur Mbl eftir Þorvaldi Lúðvíki Sigurjónssyni, framkvæmdastjóra Niceair. Í byrjun apríl tilkynnti félagið að hlé hefði verið gert á starfsemi þess vegna þess að það hefði misst einu flugvél sína.
„Við höfum haldið úti reglulegu áætlunarflugi milli Norðurlands og Kaupmannahafnar og Tenerife síðan í júní á [síðasta] ári með 71 prósent sætanýtingu. Við erum búin að sýna fram á að þessi þjónusta er mjög þörf og heimamarkaðurinn hefur reynst meiri og öflugri en vonir stóðu til. Á þessu tímabili hefur veður sjaldnast haft áhrif, en 2 prósent flugferða okkar voru með einhvers konar frávik. Flug um Akureyrarflugvöll reyndist ekki vera vandamál um hávetur og var lent og tekið á loft í marglitum viðvörunum á tímabilinu. Þetta er sorgleg niðurstaða fyrir alla. Mest hörmum við þau óþægindi sem af þessu hljótast fyrir okkar viðskiptavini,” var haft eftir Þorvaldi í tilkynningu.
Í frétt Mbl er haft eftir honum að stjórn og hluthafar félagsins séu að meta stöðuna, hvenær og á hvaða forsendum rekstur félagsins geti hafist á ný. „Það er auðvitað mikil óvissa uppi og hvenær það myndi geta gerst, og þá hverjir myndu vera um borð,“ er haft eftir honum.
Þá segir að búið sé að endurgreiða öllum þeim sem keyptu flugfar með greiðslukorti og að það muni skýrast á næstunni hvernig endurgreiðslum til þeirra sem greiddu með öðrum hætti verði háttað.