„Það er smá bakslag hjá mér,“ segir Guðmundur í myndbandsupptöku sem hann birti á Facebook í dag. Guðmundur var þá staddur á spítala í steralyfjameðferð til að reyna snúa höfnun við.„Fyrir um tveimur eða þremur vikum síðan byrjaði ég að bólgna í kringum neglurnar. Þetta var heilmikil bólga og neglurnar byrjuðu að detta af,“ segir Guðmundur.
„Þetta leit ekki vel út þannig að það var ákveðið að taka vefjasýni.“
Sögðu læknarnir að það væri möguleiki á að þetta væri höfnun, en gæti líka verið eitthvað annað. Uppruninn virtist vera í fingrunum, þar sem neglurnar verða til. Fékk hann í kjölfarið sterasprautur.
Sá rauða díla
Einkennin byrjuðu hins vegar að ágerast. „Um helgina byrjaði ég að sjá rauða díla. Í upphafi hafði ég ekki miklar áhyggjur en svo á mánudag og þriðjudag ágerðist þetta,“ segir Guðmundur.
Ákvað hann því að senda læknateymi sínu myndir af handleggjunum, sem voru með útbrotum og roða.

„Líkaminn er að hafna handleggnum,“ segir Guðmundur. Þetta sé ekki í fyrsta skipti sem höfnunareinkenni komi upp hjá honum. Hjá sjúklingum sem hafa farið í ígræðslu komi höfnun yfirleitt upp á fyrstu vikunum eða mánuðunum eftir aðgerð. Sjaldgæfara sé að þetta gerist eftir meira en tvö ár, eins og hjá Guðmundi nú.
Napalmsprengja á ónæmiskerfið
Guðmundur segir að það sé möguleiki að hann missi handleggina. Læknarnir hafi ákveðið að auka steraskammtinn verulega, úr fimm milligrömmum á dag í fimm hundruð.
„Þetta er eins og napalmsprengja sem tekur út ónæmiskerfið mitt algerlega,“ segir Guðmundur. „Ég vona að þetta dugi og að ég komist aftur á rétta leið.“