Miloš var ráðinn þjálfari Rauðu Stjörnunnar í ágúst á síðasta ári og er liðið því að vinna serbnesku deildina á sínu fyrsta tímabili undir stjórn hans en enn eru sex umferðir eftir af deildarkeppninni í Serbíu.
„Fyrst af öllu vil ég óska leikmönnunum til hamingju með allt sem þeir hafa afrekað hingað til. Þeir hafa sýnt stöðugleika, sem er ekki auðvelt en virkilega gott að ná,“ sagði Miloš í viðtali eftir leik.
Þá óskaði hann stuðningsmönnum félagsins og þjálfarateymi sínu til hamingju með árangurinn en vildi sjálfur ekki fagna of mikið.
„Svona er ég bara sem manneskja, ég fagna ekki fyrr en verkinu er lokið,“ sagði Milos en fram undan er nágrannaslagur milli Rauðu Stjörnunnar og Partizan Belgrad.
Miloš var aðstoðarþjálfari Rauðu Stjörnunnar frá árinu 2019 til 2021 en segja má að þjálfaraferill hans hafi byrjað af alvöru hér á landi, fyrst hjá Víkingi Reykjavík og svo hjá Breiðabliki.
Seinna meir átti Miloš eftir að færa sig um set yfir til Svíþjóðar þar sem hann stýrði liðum á borð við Mjallby, Hammarby og Malmö FF.