Fyrir leiki dagsins munaði aðeins tveimur stigum á Bayern Munchen og Dortmund í toppbaráttu þýsku úrvalsdeildarinnar. Bayern var tveimur stigum á undan erkifjendum sínum og því hvert stig mikilvægt í baráttunni.
Dortmund mætti Stuttgart á útivelli í heldur betur dramatískum leik. Dortmund komst í 2-0 í fyrri hálfleik með mörkum frá Sebastian Haller og Donyell Malen auk þess sem Konstantinos Mavropanos í liði Stuttgart fékk rautt spjald.
Það stefndi því allt í þægilegan dag hjá Dortmund en sú varð alls ekki raunin. Einum færri tókst liði Stuttgart að jafna eftir mark frá Tanguy Coulibaly á 78. mínútu og Josha Vagnoman sex mínútum síðar. Giovanni Reyna virtist síðan vera búinn að tryggja Dortmund stigin þrjú með marki í uppbótartíma en á sjöundu mínútu uppbótartíma skooraði Silas Katompa Mvumpa fyrir Stuttgart og jafnaði metin.

Lokatölur 3-3, dramatískt jafntefli og leikmenn Dortmund geta nagað sig í handarbökin að hafa ekki hirt stigin þrjú.
Í Munchen tóku heimamenn í Bayern á móti liði Hoffenheim. Benjamin Pavard skoraði fyrir Bayern í fyrri hálfleik en í þeim síðari jafnaði Andrej Kramaric metin fyrir Hoffenheim og úrslitin 1-1.
Í Leipzig unnu heimamenn 3-2 sigur á Augsburg og í Köln gerðu FC Köln og Mainz 1-1 jafntefli.
Bayern Munchen heldur því tveggja stiga forsytu á Dortmund á toppnum. RB Leipzig og Union Berlin koma síðan í næstu tveimur sætum ekki svo langt á eftir en hæpið verður þó að teljast að þau blandi sér í titilbaráttuna.