Umfangsmiklar aðgerðir brasilísku lögreglunnar á miðvikudagsmorgun voru liður í því að uppræta glæpasamtök sem hafa sérhæft sig í peningaþvætti og fíkniefnaviðskiptum. Líkt og áður hefur komið var var einn þeirra tuttu og sex sem voru handteknir Sverrir Þór Gunnarsson, betur þekktur sem Sveddi tönn.
Lést í febrúar úr krabbameini
Nú hefur komið í ljós að Sverrir var ekki eini Íslendingurinn sem stóð til að handtaka heldur hafði einnig verið gefin út handtökuskipun á hendur öðrum Íslendingi sem var búsettur í Rio de Janeiro. Sá maður lést hinsvegar í febrúar eftir skammvinn veikindi. Hann hét Sigurður Bragason, var 48 ára gamall og hafði búið í Brasilíu í fjögur ár þegar hann lést.
Í viðtali við Vísi í febrúar greindi systir Sigurðar frá því að í ágúst í fyrra hefði hann greinst með heilaæxli. Þegar viðtalið birtist lá Sigurður banaleguna á sjúkrahúsi í Rio de Janeiro. Hann lést daginn eftir að viðtalið birtist.
Efnt var til söfnunar til styrktar fjölskyldunni þar sem veikindi Sigurðar auk vatnstjóns á húsi þeirra hafði að sögn systur hans sett fjölskylduna í gífurlega erfiða stöðu fjárhagslega.
Ekki er ljóst hvert hlutverk Sigurðar var í málinu en samkvæmt heimildum fréttastofu var hann ekki höfuðpaur líkt og Sverrir Þór er grunaður um að vera. Hann hefur þó áður komið við sögu í slíkum málum, verið vitni og var sýknaður í stóru fíkniefnamáli fyrir tuttugu árum.
Þeir sem handteknir hafa verið í aðgerðinni, sem alríkislögreglan kallar Match Point, eru grunaðir um víðtækt fíkniefnasmygl til og frá Brasilíu sem og peningaþvætti.