Í tilkynningu sem birt var á vef Hörpu kemur fram að ákveðið hafi verið að hefja gjaldtöku fyrir salerni til að sinna þeim stóra hópi ferðamanna sem nýta salernisaðstöðuna.
„Undanfarin misseri hefur fjölgað mikið komum ferðamanna sem eiga stutta viðkomu í Hörpu og nýta salernisaðstöðu,“ segir í tilkynningunni. Þá kemur fram að Harpa taki á móti yfir milljón gestum á hverju ári.
Greiðsluvél hefur verið sett upp við salernisaðstöðuna og segir í tilkynningunni að einfalt sé að greiða með mynt eða greiðslukorti.
Kostar 200 krónur
Ljóst er að verðbólgan hefur ekki náð að festa klær sínar í verðmiðanum á einni salernisferð í Hörpu. Hver ferð kostar nú 200 krónur fyrir hvern einstakling en ókeypis er fyrir börn að nýta aðstöðuna. Árið 2017 kostaði salernisferðin 300 krónur og svo 250 krónur árið 2018.
Gestir sem sækja viðburði þurfa svo ekki að greiða fyrir aðgengi að salernisaðstöðunni. Þeir geta skannað strikamerki sem er að finna á aðgöngumiða, bæði rafrænum og útprentuðum, til að komast á salernið.