Þetta er meðal þess sem fram kemur í leyniskjölunum frá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna sem lekið var á dögunum og hafa vakið mikla athygli.
Enn er óljóst hver lak skjölunum en þau virðast staðfesta það sem marga sérfræðinga hefur grunað að Úkraínumenn njóti aðstoðar á vígvellinum í baráttu sinni við Rússa frá erlendum sérsveitarmönnum. Samkvæmt skjali sem dagsett er 23. mars síðastliðinn segir að Bretar séu með flesta slíka hermenn í landinu, fimmtíu talsins. Lettar eru með sautján, Frakkar fimmtán, Bandaríkjamenn fjórtán og Hollendingar einn. Ekki kemur fram í skjalinu hvað þessir sérsveitamenn eru að gera í Úkraínu eða hvar þeir eru staðsettir.
Fastlega er búist við að þessi uppljóstrun veki hörð viðbrögð frá Rússum sem oftsinnis hafa sakað NATO um óeðlileg afskipti af stríðinu.