Í umræddri skýrslu er talað um fjögur „wild cards“ en þau eru andlát Vladimir Pútíns Rússlandsforseta eða Vólódímírs Selenskís Úkraínuforseta, útskipti forystu rússneska hersins og árás Úkraínumanna á Kreml.
Skjalið er dagsett 24. febrúar síðastliðinn, ári eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst, og er að sögn New York Times dæmigert vinnugagn öryggisyfirvalda, ætlað að hjálpa hermálayfirvöldum og stjórnmálamönnum að sjá fyrir sér mögulega þróun mála mikilvægra atburða.
Samkvæmt New York Times hafa stjórnvöld vestanhafs haft einna mestar áhyggjur af þeim möguleika að Úkraínumenn geri árás á Moskvu, þar sem það gæti leitt til stórfelldrar stigmögnunar af hálfu Rússa. Þetta er ein ástæða þess að Bandaríkjamenn hafa verið tregir til að sjá Úkraínu fyrir langdrægum eldflaugum.
Það vekur athygli að þrátt fyrir að New York Times hafi skjalið undir höndum er ekki fjallað ítarlega um hvert „wild card“ fyrir sig, það er að segja hvaða afleiðingar menn hafa metið að mögulegir viðburðir gætu haft.