Liverpool og Arsenal mættust í stórleik á Anfield þar sem vægast sagt mikið var undir. Heimamenn eru í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti á meðan Skytturnar eru í baráttu um meistaratitilinn sjálfan.
Gestirnir frá Lundúnum komust 2-0 yfir en tókst að missa það niður í jafntefli þó svo að Mohamed Salah hafi brennt af vítaspyrnu fyrir liðið frá Bítlaborginni. Lokatölur 2-2 en það var þó atvik sem tengdist dómurunum sem stal fyrirsögnunum.
Constantine Hatzidakis, annar af aðstoðardómurum leiksins, virtist gefa Robertson olnbogaskot þegar fyrri hálfleik lauk. Leikmaðurinn virtist ósáttur með störf Hatzidakis og óð upp að honum.
Robertson virðist stugga við aðstoðardómaranum sem lyftir upp olnboganum í kjölfarið. Vinstri bakvörðurinn brást einkar illa við og hlaut á endanum gult spjald vegna hegðunar sinnar.
The PGMOL body, which governs referees in English football, has said it is investigating the incident between linesman Constantine Hatzidakis and Andy Robertson. pic.twitter.com/XLGXNqHl4P
— Sky Sports Premier League (@SkySportsPL) April 9, 2023
Roy Keane, sparkspekingur Sky Sports, segir Robertson hafa hagað sér eins og barn.
„Hann ætti að hafa meiri áhyggjur af varnarleiknum hjá sér. Hann rífur í aðstoðardómarann fyrst.“
Dómarasamtökin hafa gefið út að þau muni rannsaka atvikið áður en ákvörðun verður tekin.