Nordstream 1-leiðslan flutti gas frá Rússlandi til meginlands Evrópu en þau viðskipti stöðvuðust nánast í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu í fyrra. Í september voru skemmdir svo unnar á bæði Nordstream 1 og 2.
Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildarmönnum sínum að Munich Re og Allianz, tvö stærstu tryggingafélög Þýskalands, hafi endurnýjað vátryggingu fyrir Nordstream 1. Þrátt fyrir að þýsk stjórnvöld hafi rofið tengsl við Rússland hafi þau ekki lagst gegn ákvörðun tryggingafélaganna.
Rússesk stjórnvöld eiga 51 prósent í gasleiðslunni í gegnum ríkisorkufyrirtækið Gazprom. Flestir vestrænir fjárfestar hafa afskrifað eignarhlut sinn í henni. Einhverjir hluthafar eru sagðir vilja viðhalda leiðslunni ef ske kynni að samskipti Rússa við Evrópu batni.
Endurnýjaða tryggingin er sögð auðvelda viðgerðir á leiðslunni ef til þess kemur að hún verði aftur notuð til þess að flytja gas frá Rússlandi til Þýskalands.