Forsætisráðherra boðaði breytta tíma í Silfrinu í dag. Ríkisstjórnin ætli að ráðast í harðari aðgerðir til að kveða niður verðbólgudrauginn og það verði meðal annars gert með því að auka tekjuöflun - skattheimtu - ríkissjóðs.
Boðar „sanngjarnari“ veiðigjöld
„Við munum hér eftir sem hingað til vera með okkar forgangsatriði alveg á hreinu, sem er að standa vörð um tekjulægstu hópana og er að tryggja almannaþjónustuna. Hvort sem er í heilbrigðiskerfinu eða skólunum. En ég vil líka segja það að hvernig sem við horfum á þá er staðan ekki slæm á Íslandi,“ segir Katrín. Skuldastaðan sé góð í alþjóðlegu samhengi og afkoma hafi verið betri en búist var við.
Forsætisráðherra útilokar ekki hækkun veiðigjalda. Hún segir að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hafi staðið í umfangsmikilli stefnumótun sem fljótlega verði kynnt. Gjaldheimta í sjávarútvegi verði „sanngjarnari,“ en áður.
Verkefni númer eitt, tvö og þrjú
„Við þurfum auðvitað að takast á við verðbólguna, og það er verkefni númer eitt, tvö og þrjú núna. Seðlabankinn auðvitað sem hefur þetta hlutverk hann er ekkert einn í því verkefni. Hver einasti kjarasamningur sem leysist farsællega við kjarasamningsborðið hann þjónar ákveðnu hlutverki getum við sagt í því að slá á verðbólguvæntingar og skapa hér ákveðinn stöðugleika.“
Hún kveðst hafa trú á því að fjármálaáætlunin muni hafa tilætluð áhrif. Stefnan sé sett á að hafa „trúverðuga“ áætlun sem slái á verðbólgu og standi vörð um viðkvæma hópa.
Katrín er ekki sammála því að ríkisstjórninni hafi mistekist. Ný fjármálaáætlun hafi verið sett á laggirnar vegna breyttra tíma.
„Það koma gríðarlega stór verkefni og við beittum auðvitað ríkissjóði af gríðarlega miklum þunga til þess að takast á við heimsfaraldur. Við vorum frekar gagnrýnd til að beita honum ekki nægjanlega. Þegar við gerum upp þessi mál eftir á, þá held ég að sagan sýni að við höfum gengið mjög langt í að beita ríkissjóði til þess að styðja við atvinnulíf og almenning í landinu. Þegar stríðið svo skellur á með tilheyrandi hrávöruverðshækkunum þá sjáum við ekki verðbólguna vaxa, ekki bara hjá okkur heldur bæði vestanhafs og austan.“