Greint er frá þessu á vef innviðaráðuneytisins. Þar segir að starfshópurinn hafi það hlutverk að setja fram sviðsmyndir um mismunandi útfærslur og kosti og galla hverrar fyrir sig. Þá sé starfshópnum ætlað að meta arðsemi framkvæmdarinnar.
„Loks á starfshópurinn að leggja fram kostnaðarmetna áætlun um þær jarðfræðilegu rannsóknir, sem og aðrar rannsóknir, sem framkvæma þarf, svo hægt verði að leggja endanlegt mat á fýsileika framkvæmdarinnar.
Starfshópurinn verður skipaður fimm sérfræðingum, þar af einum tilnefndum af Vestmannaeyjabæ og einum tilnefndum af Vegagerðinni.
Starfshópurinn skilar ráðherra niðurstöðum sínum fyrir lok árs 2023,“ segir á vef ráðuneytisins.
Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti síðasta sumar tillögu um að fela Írisi Róbertsdóttur bæjarstjóra og bæjarráði að taka upp samtal við stjórnvöld um að kanna fýsileika á gerð jarðgangna milli lands og Eyja.