Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan tvö. Páll var ekki viðstaddur dómsuppsöguna. Hann þarf að greiða blaðamönnunum 300 þúsund krónur, hvorum fyrir sig, auk málskostnaðar upp á 700 þúsund krónur.
Þeir Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Heimildarinnar, og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður sama miðils, stefndu Páli fyrir meiðyrði og kröfðust ómerkingar á tvennum ummælum á bloggsíðu hans á vefsvæði Mbl.is.
Annars vegar voru það ummæli um að tvímenningarnir hefðu átt „aðild, beina eða óbeina“ að því að Páli Steingrímssyni, skipstjóra hjá Samherja, hefði verið byrlað og síma hans stolið. Hins vegar voru það ummæli Páls um að saksóknari gæfi út ákæru á hendur blaðamönnunum.

Páll Vilhjálmsson neitaði að draga ummælin til baka þrátt fyrir að honum hafi verið boðið að fella málið niður án frekari eftirmála með þeim hætti.
Þórður Snær og Arnar Þór fjölluðu um svonefnda skæruliðadeild Samherja, hóp starfsmanna sem reyndu að hafa áhrif á samfélagsumræðu um fyrirtækið. Til þess notuðu þeir gögn sem virðast hafa komið úr síma Páls Steingrímssonar, skipstjóra hjá Samherja. Páll heldur því fram að byrlað hafi verið fyrir honum og síma hans stolið á meðan. Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra rannsakar það mál og hafa báðir blaðamennirnir stöðu sakbornings.
Páll Vilhjálmsson hefur ítrekað fjallað um málið og ýjað að því að Þórður Snær og Arnar Þór hafi átt þátt í að Páli skipstjóra var byrlað og síma hans stolið.
Fullyrðingar um byrlun séu ekki boðlegar
Þórður Snær ræddi við blaðamann að dómsuppsögunni lokinni.
„Þetta er rétt niðurstaða. Sú niðurstaða sem við lögðum upp með og töldum að yrði á endanum. Maðurinn viðhafði staðreyndir og staðhæfingar um að við hefðum framið alvarleg hegningarlagabrot. Að við bærum beina eða óbeina ábyrgð á byrlun og stuldi. Það gátum við ekki sætt okkur við. Því er ánægjulegt að vita til þess að réttarkerfið virki eins og það á að gera,“ segir Þórður Snær.
„Hann laug upp á okkur alvarlegum hegningarlagabrotum.“
Þórður Snær og Arnar Þór eru á meðal blaðamanna sem sæta rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra í tengslum við svokallaða „skæruliðadeild“ Samherja. Umfjöllunin byggði á gögnum úr síma Páls Steingrímssonar, skipstjóra hjá Samherja.
Þórður Snær minnir á að málið sé rannsakað sem brot á 228. og 229. grein hegningarlaga sem snúi um friðhelgi einkalífs.
„Það hefur ekkert að gera með að byrla einhverjum eða þjófnað, sem eru brot alls annars eðlis. Fullyrðingar um að við höfum gert slíkt er úr lausu lofti gripnar og ekki boðlegar. Þess vegna ákváðum við að fara þessa leið sem er ekki sjálfsagt fyrir blaðamann að gera. En við sáum okkur ekki annað fært.“