HSÍ er í leit að landsliðsþjálfara fyrir Guðmund Guðmundsson sem hætti eftir heimsmeistaramótið í Svíþjóð og Póllandi. Margir hafa verið nefndir til sögunnar og nokkrir lýst yfir áhuga sínum á starfinu. Má þar nefna Kristján Andrésson, Snorra Stein Guðjónsson og Roberto García Parrondo.
Sigfús var til viðtals í Handkastinu í fyrradag þar sem hann tjáði sig um leitina að nýjum landsliðsþjálfara. Honum líst vel á að fá erlendan þjálfara sem er óháður HSÍ.
„Það hafa mörg nöfn komið upp og mörg góð. Ég væri alveg til í að fá Kristján. Hann er mjög flottur. Snorri er flottur en ég veit ekki hvort hann sé tilbúinn núna. Dagur [Sigurðsson], Alfreð [Gíslason] og Erlingur [Richardsson] hafa líka verið nefndir og fleiri,“ sagði Sigfús.
„Það sem ég er hræddur um er þegar verið er að ráða stráka sem hafa unnið á Íslandi, verið í landsliðinu og fleira, þá er alltaf innanhússpólítík sem ræður svo miklu um umgjörð og hvernig hlutirnir eru gerðir og svo framvegis. Ef við fáum einhvern erlendan þjálfara leggur hann bara línurnar sem farið er eftir og er laus við alla pólítík.“
En heldur Sigfús að þjálfarar sem hafa áður verið viðloðandi landsliðið verði hræddir við að styggja einhverja?
„Eða að mennirnir sem stjórna setja honum stólinn fyrir dyrnar þannig að hann fái ekki að gera það sem hann vill. Það er meira það. Ef eftirsóttum erlendum þjálfara yrði settur stólinn dyrnar segir hann bara: allt í lagi, ég fer bara að vinna annars staðar. Þá vita menn hvar vandamálið liggur,“ sagði Sigfús.
Hlusta má á Handkastið í spilaranum hér fyrir ofan.