Körfubolti

Martin spilaði í fyrsta sinn í tæpt ár í sigri Valencia

Smári Jökull Jónsson skrifar
Martin í leik með Valencia á síðasta tímabili.
Martin í leik með Valencia á síðasta tímabili. Vísir/Getty

Martin Hermannsson lék sinn fyrsta leik fyrir Valencia síðan í maí á síðasta ári þegar liðið vann sigur á Girona í spænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í dag.

Martin sleit krossband í maí á síðasta ári í leik með Valencia og hefur verið frá keppni síðan þá. Hann var í leikmannahópi liðsins gegn Real Madrid í Evrópukeppninni í vikunni en kom þá ekkert við sögu.

Hann fékk hins vegar tækifæri í dag þegar Valencia mætti Girona á útivelli. Martin lék í rúmar tólf mínútur í 79-75 sigri Valencia. 

Martin skoraði sína fyrstu körfu í tæpt ár þegar hann setti niður þriggja stiga skot í upphafi annars leikhluta en hann nýtti annað af tveimur þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Martin gaf þar að auki fjórar stoðsendingar.

Valencia hafði yfirhöndina í fyrri hálfleik í dag og leiddi með fjórtán stigum í hálfleik, staðan þá 46-32. Í þriðja leikhluta bitu heimamenn frá sér og náðu að minnka muninn en Valencia skoraði aðeins níu stig í leikhlutanum.

Þeir náðu hins vegar vopnum sínum á ný í lokafjórðungnum. Valencia vann að lokum 79-75 sigur og eru í 8. sæti deildarinnar með 24 stig en áttunda sætið er það síðasta sem gefur sæti í úrslitakeppninni.

Það eru heldur betur frábærar fréttir að Martin sé kominn á ferðina á ný og hann fær vafalaust fleiri tækifæri með liði Valencia á næstu vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×