Körfubolti

Tap hjá liði Söru Rúnar eftir framlengingu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sara Rún skoraði 13 stig í kvöld.
Sara Rún skoraði 13 stig í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Sara Rún Hinriksdóttir mátti þola tap með liði sínu Faenza í efstu deild ítalska körfuboltans í kvöld. 

Faneza tók á móti liði San Giovanni á heimavelli sínum í kvöld en fyrir leikinn var Faenza með 12 stig í ellefsta sæti deildarinnar en gestirnir í fimmta sætinu með 28 stig.

Sara Rún og liðsfélagar hennar byrjuðu leikinn vel, voru með níu stiga forskot eftir fyrsta leikhlutann og héldu muninum að mestu fram að hléi og leiddu 45-37 eftir fyrri hálfleikinn. 

Í síðari hálfleik fór að ganga illa sóknarlega. Liðið skoraði aðeins ellefu stig í þriðja leikhluta og allt í járnum. Að loknum venjulegum leiktíma var staðan 70-70 og því varð að framlengja. 

Í framlengingunni voru gestirnir mun sterkari. Lið San Giovanni skoraði tólf gegn aðeins þremur stigum Faenza og tryggði sér að lokum 82-73 sigur.

Sara Rún spilaði í tæpar þrjátíu mínútur í leiknum. Hún skoraði þrettán stig, þar af þrjár þriggja stiga körfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×