Lilibet sem heitir fullu nafni Lilibet Diana Mountbatten-Windsor í höfuðið á ömmu sinni og langömmu fæddist í júní árið 2021. Hún er annað barn foreldra sinna en fyrir eiga þau Archie sem verður fjögurra ára gamall í maí.
Á föstudaginn hélt fjölskyldan litla skírnarathöfn fyrir Lilibet á heimili sínu í Montecito í Kaliforníu. Talið er að 20-30 gestum hafi verið boðið í skírnina. Í athöfninni voru meðal annars Doria Ragland, móðir Meghan, leikarinn Tyler Perry sem er guðfaðir Lilibetar og óþekkt guðmóðir Lilibetar.
Eftir athöfnina var boðið upp á veitingar og Lilibet er sögð hafa dansað við stóra bróður sinn.
Heimildir People herma að Karli Bretakonungi, Kamillu Bretadrottningu, Vilhjálmi Bretaprins og Katrínu prinsessu hafi öllum verið boðið í athöfnina en þau létu þó ekki sjá sig.

Óskar þess að börnin geti átt í góðu sambandi við fjölskylduna
Harry og Meghan hættu að starfa sem fulltrúar konungsfjölskyldunnar árið 2020. Þau yfirgáfu Bretland skömmu síðar og eru nú búsett í Kaliforníu. Í síðustu viku var greint frá því að þeim hafi verið gert að tæma híbýli sitt á lóð Windsor-kastala sem Elísabet drottning hafði boðið þeim til afnota.
BBC segir frá því að þau Harry og Meghan hafi fengið skilaboð um að tæma Frogmore í janúar síðast liðnum, fáeinum dögum eftir útgáfu bókar Harry, Spare.
Í byrjun árs sagði Harry í viðtali að hann óskaði þess að börnin hans gætu átt í góðu sambandi við konungsfjölskylduna.
„Ég hef sagt það áður að mig langaði í fjölskyldu, ekki stofnun. Þannig að auðvitað þrái ég ekkert heitar en börnin okkar eigi í sambandi við fjölskylduna mína. Þau eiga gott samband við suma og það gleður mig svo mikið,“ sagði Harry í viðtalinu.