Grótta sagði frá því í dag að Aron hafi samið við knattspyrnudeildina. Grótta hefur verið að styrkja liðið sitt að undanförnu og stefnir aftur upp í Bestu deildina þar sem liðið spilaði sumarið 2020.
„Aron spilar í hjarta varnarinnar og hefur nú þegar látið til sín taka á æfingasvæðinu þar sem reynsla hans og leiðtogahæfileikar hafa nýst liðinu og teyminu vel,“ segir í frétt um Aron í frétt á miðlum knattspyrnudeildar Gróttu.
Aron Bjarki er 33 ára gamall en hann er frá Húsavík og uppalinn Völsungur, en hann lék í fjölda ára með KR-ingum í efstu deild. Hann á að baki 146 leiki í efstu deild en í fyrra lék hann með ÍA. Hann spilaði 128 leiki og skoraði 8 mörk fyrir KR í A-deildinni.
„Ég er mjög hamingjusamur að vera búinn að skrifa undir samning við Gróttu. Ég hlakka mikið til að leggja mitt af mörkum og hjálpa félaginu á alla þá vegu sem ég get til að ná markmiðum sínum í þessu spennandi verkefni sem er í gangi á Seltjarnarnesi,“ sagði Aron í viðtali við á miðlum knattspyrnudeildar Gróttu.