Lögregla stöðvaði marga í umferðinni í gærkvöldi og nótt grunaða um akstur undir áhrifum vímuefna. Þá var tilkynnt um þjófnað á ferðatöskum á gistiheimili í miðborginni og óvelkominn einstakling á hóteli í póstnúmerinu 105.
Í póstnúmerinu 103, sem meðal annars nær yfir Kringluna, var tilkynnt um þjófnað í verslunarmiðstöð en grunuðu reyndust undir sakhæfisaldri og var málið unnið í samráði við foreldra og barnaverndaryfirvöldum gert viðvart.
Tilkynnt var um grunsamlegar mannaferðir í Hafnarfirði en engar frekari upplýsingar fylgja um atvikið í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar. Þá var tilkynnt um ölvaðan einstaling sem virtist ekki geta haldið sér uppréttum á göngustíg og var honum ekið heim.
Í póstnúmerinu 221 voru tveir staðnir að þjófnaði á stálplötum. Þeir voru handteknir og vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknarhagsmuna.
Öðrum ölvuðum einstakling sem var á gangi í póstnúmerinu 112 var ekið til síns heima og þá barst tilkynning um ölvaðan einstakling í stigagangi í Kópavogi. Í Kópavogi var einnig tilkynnt um einstakling sem var ógnað af tveimur öðrum með hnífi. Höfðu þeir af honum fjármuni. Málið er í rannsókn.