Fótbolti

Ráku sama þjálfara tvisvar sinnum á 31 degi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Davide Nicola hefur endanlega lokið störfum hjá Salernitana en hann lifði ekki af tapið á móti Hellas Verona á mánudaginn.
Davide Nicola hefur endanlega lokið störfum hjá Salernitana en hann lifði ekki af tapið á móti Hellas Verona á mánudaginn. Getty/ Emmanuele Ciancaglini

Ítalska félagið Salernitana hefur rekið þjálfarann Davide Nicola í annað skiptið á þessu ári.

Aðeins 31 dagur leið á milli brottrekstranna hjá hinum 49 ára gamla Nicola.

Nicola var rekinn í janúar eftir 8-2 tap á móti Atalanta en svo endurráðinn tveimur dögum síðar.

Nicola var upphaflega ráðinn í febrúar á síðasta ári en nú fékk hann endanlega sparkið og Paulo Sousa tekur við. Paulo Sousa þjálfaði áður lið Fiorentina.

Salernitana er í sextánda sæti í Seríu A, fjórum stigum fyrir ofan fallsæti.

Síðan að Nicola var endurráðinn í síðasta mánuði hafði Salernitana unnið einn leik og tapað þremur í deildinni. Lokaleikur hans var tapleikur á móti Hellas Verona á mánudaginn.

Salernitana tapaði annars sjö af síðustu tíu leikjum sínum undir stjórn Nicola og vann aðeins einn þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×