Körfubolti

Keflvíkingar í fýlu á toppnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ekki virðist allt vera eins og það á að vera innan raða Keflavíkur, allavega að mati sérfræðinga Subway Körfuboltakvölds.
Ekki virðist allt vera eins og það á að vera innan raða Keflavíkur, allavega að mati sérfræðinga Subway Körfuboltakvölds. vísir/bára

Þrátt fyrir að Keflavík sé á toppi Subway-deildar karla í körfubolta finnst sérfræðingum Subway Körfuboltakvölds eins og ekki sé allt með felldu í Bítlabænum.

Keflavík tapaði fyrir Haukum, 67-83, í 16. umferð Subway-deildarinnar á fimmtudaginn. Þrátt fyrir það eru Keflvíkingar á toppi deildarinnar með 24 stig, líkt og Njarðvíkingar og Valsmenn.

Í Subway Körfuboltakvöldi á föstudaginn töluðu þeir Teitur Örlygsson og Darri Freyr Atlason um andrúmsloftið innan herbúða Keflavíkur.

„Hjaltiog Hössi vita alveg af þessari óánægju og finna fyrir henni. Það er mikið talað um þetta. Það getur dregið þá niður. Það er hættulegt því þeir eru höfuðið á liðinu. Þeir stjórna öllu,“ sagði Teitur um bræðurna Hjalta og Hörð Axel Vilhjálmssyni, þjálfara og fyrirliða Keflavíkur.

„Ef þeim finnst þeir ekki metnir að verðleikum, hvað þeir eru að gera í Keflavík, minnkar þeirra áhugi og það gæti smitast út í liðið. Það voru leikmenn í liðinu í gær sem gátu ekki neitt. Áhugalausir og þungir.“

Klippa: Subway Körfuboltakvöld - Fúlir Keflvíkingar

Darri tók við boltanum. „Auðvitað eru þetta samverkandi þættir sem skipta máli. En það er ótrúlegt að liðið sé í þeirri aðstöðu að vera algjörlega með heiminn á herðum sér í efsta sæti í deildinni,“ sagði Darri.

„Fólk sér teikn á lofti um að sagan endurtaki sig, liðið sé ekki tilbúið fyrir úrslitakeppnina, sé götótt og byggt upp fyrir deildakeppnina. Og það er ástæða til að hafa áhyggjur af því.“

Horfa má á innslagið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

„Þetta er búið hjá KR“

Eitt sigursælasta körfuboltalið landsins mun að öllum líkindum leika í B-deild á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×