Guðný lék eins og venjulega í hægri bakverðinum hjá Milan í dag og spilaði allan leikinn. Milan var í fimmta sæti deildarinnar fyrir leikinn í dag en Pomigliano tveimur sætum og fjórtán stigum neðar.
Fyrri hálfleikurinn í dag var markalaus en Martina Piemonte skoraði eina mark leiksins á 69.mínútu eftir sendingu Guðnýjar.
Guðný hefur átt fast sæti í liði Milan að undanförnu og eignað sér hægri bakvarðarstöðuna. Lokatölur í dag 1-0 og Milan áfram með í pakka fimm efstu liða deildarinnar.
Þá kom Margrét Árnadóttir inn sem varamaður hjá Parma sem vann 3-1 sigur á Sampdoria. Margrét kom inná á 71.mínútu en þá var staðan 3-0 heimaliðinu í vil.
Parma er komið með þrettán stig í deildinni og með sigrinum lyfti liðið sér upp fyrir Como sem er með ellefu stig. Sampdoria er neðst með tíu stig.