Innlent

Einn læsti sig inni á salerni og öðrum vísað út af sól­bað­stofu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í nótt.
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti mörgum og fjölbreyttum verkefnum í nótt, þar af nokkrum útköllum vegna einstaklinga í annarlegu ástandi. Einn neitaði að yfirgefa bráðamóttöku, annar hafði læst sig inni á salerni kvikmyndahúss og enn öðrum var vísað út af sólbaðstofu.

Lögreglu barst ein tilkynning um líkamsárás í póstnúmerinu 103, þar sem þrír voru sagðir hafa ráðist á einn. Tveir voru handteknir og árásarþoli leitaði aðstoðar á bráðamótttöku.  Fleiri tilkynningar bárust um slagsmál, meðal annars í póstnúmerinu 105, en þeim var lokið þegar lögreglu bar að.

Í miðborginni hafði lögregla afskipti af bar sem var haldið opnum lengur en heimild var til. Mikinn hávaða lagði frá staðnum og töluvert af fólki inni þegar lögreglu mætti á vettvang. Var starfsmönnum gert að loka staðnum.

Tilkynnt var um innbrot og þjófnaði í umdæminu Kópavogur/Breiðholt og innbrot og eignaspjöll á bifreið í umdæminu Hafnarfjörður/Garðabær. Þá var tilkynnt um einstakling í annarlegu ástandi í fjölbýlishúsi í póstnúmerinu 112. Honum var ekið heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×