Greint var frá því hér á Vísi í byrjun febrúar að tveimur öpum hafi verið stolið úr dýragarðinum í Dallas í Bandaríkjunum. Nokkrum vikum áður hafði hlébarði sloppið úr búri sínu og hrægammur látið lífið í garðinum.
Aparnir fundust heilu höldnu í yfirgefnu húsnæði í 26 kílómetra fjarlægð frá Dallas. Eftir það lýsti lögreglan eftir manni sem talinn var tengjast málinu.
Maðurinn sem lýst var eftir er hinn 24 ára gamli Davion Irvin. Hann var handtekinn í síðustu viku eftir að hafa verið á sædýrasafni í borginni að spyrja spurninga um dýrin. Hann hefur verið ákærður fyrir dýraníð og þjófnað.
Í skýrslutöku sagði Irvin að hann hafi stokkið yfir grindverk dýragarðsins eftir lokun og skorið gat á búr apanna. Hann tók þá með sér í lest og flutti þá á heimilið þar sem þeir fundust loks tveimur dögum síðar. Á heimilinu fundust einnig nokkrir kettir, nokkrar dúfur og dauðir fiskar.
Hann er einnig grunaður um að hafa sleppt hlébarðanum Nova úr haldi en hann slapp úr búri sínu í janúar. Hlébarðanum tókst ekki að komast úr garðinum en eftir að garðurinn var rýmdur fannst hann stuttu frá búri sínu.
Í lögregluskýrslunni sem CBS hefur undir höndunum er haft eftir Irvin að hann myndi stela fleiri öpum úr dýragörðum ef honum yrði sleppt úr haldi.
Labbóttur hrægammur lést dularfullum dauðdaga í dýragarðinum nokkrum dögum fyrir hvarf apanna. Hann var með „grunsamlegt sár“ þegar hann fannst látinn en Irvin er ekki talin tengjast dauðanum.