Victor Osimhen hefur farið mikinn með Napoli í vetur og skorað sextán mörk í sautján deildarleikjum. Napoli er með þrettán stiga forskot á toppi ítölsku úrvalsdeildarinnar.
Frammistaða Osimhens hefur eðlilega vakið athygli, meðal annars United sem er í framherjaleit. Og samkvæmt La Gazzetta dello Sport er United tilbúið að borga riftunarverðið í samningi Nígeríumannsins.
Það er 107 milljónir punda og ef United greiðir það verður Osimhen dýrasti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar ásamt Enzo Fernández sem Chelsea keypti frá Benfica í síðustu viku.
Chelsea hefur líka áhuga á Osimhen sem Napoli keypti frá Lille 2020. Hann hefur alls skorað 45 mörk í 83 leikjum fyrir ítalska félagið. Þá hefur Osimhen skorað fimmtán mörk í 22 leikjum fyrir nígeríska landsliðið.
United er í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og komið í úrslit deildabikarsins. Næsti leikur liðsins er gegn Leeds United annað kvöld.