Þetta kemur fram í bréfi Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA, til Eflingar og Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns hennar.
Í bréfinu segir að ekki megi skilja dóm Félagsdóms, sem kvað á um að boðuð vinnustöðvun Eflingar væri ekki ólögmæt, á annan veg en að hann taki undir réttmætar kröfur ríkissáttasemjara um afhendingu kjörskrár og að um ólögmæta vanrækslu af hálfu Eflingar sé að ræða.
Héraðsdómur úrskurðaði í dag að aðfarargerð væri heimil til þess að fá félagatal Eflingar afhent. Sólveig Anna hefur hins vegar tilkynnt að Efling muni ekki afhenda félagatalið fyrr en úrskurður Landsréttar liggur fyrir í málinu, þrátt fyrir að héraðsdómur hafi neitað kröfu Eflingar um að réttaráhrifum úrskurðar hans yrði frestað.
Harma afstöðu Eflingar
Í bréfinu segir að ætlan Eflingar virðist sú ein að valda aðildarfyrirtækjum SA tjóni, án þess að það sé liður í yfirstandandi kjaraviðræðum eða vinnudeilu, enda bíði miðlunartillaga sáttasemjara atkvæðagreiðslu. Fyrst ef miðlunartillagan verður felld skapist skilyrði fyrir verkföllum sem þrýstingi á viðsemjanda.
„Samtök atvinnulífsins harma og mótmæla afstöðu Eflingar og skora á félagið af fresta boðaðri vinnustöðvun þar til niðurstaða atkvæðagreiðslu liggur fyrir. SA áskilja aðildarfyrirtækjum samtakanna bótarétt vegna alls tjóns sem af ólögmætum aðgerðum Eflingar kann að hljótast,“ segir í lok bréfsins.
Bréfið má lesa í heild sinni hér.