Það er Fótbolti.net sem greinir frá þessu en í frétt þeirra kemur jafnframt fram að lið Ham-Kam í norsku úrvalsdeildinni sem og félög í Danmörku hafi sýnt Júlíusi áhuga. Ólafur Garðarsson umboðsmaður Júlíusar staðfestir að viðræður við Fredrikstad séu langt á veg komnar og að leikmaðurinn fari í læknisskoðun í næstu viku.
Það er áfall fyrir Víkinga að missa fyrirliða sinn frá sér en Júlíus hefur verið lykilmaður hjá Víkingum undanfarin ár sem urðu Íslandsmeistarar árið 2021.
Júlíus hefur leikið 115 leiki fyrir Víkinga og skorað í þeim 8 mörk. Þá á hann að baki fimm A-landsleiki auk fjölda landsleikja fyrir yngri landslið Íslands.
Fredrikstad lék síðast í efstu deild Noregs árið 2012, féll í þriðju efstu deild árið 2017 en tryggði sér sæti í næst efstu deild á ný haustið 2020.
Félagið hafnaði í tíunda sæti af sextán liðum á síðustu leiktíð en hefur sett sér það markmið að ná sæti í efstu deild á næstu tveimur árum. Fredrikstad er næst sigursælasta lið Noregs frá upphafi með níu meistaratitla en vann síðast titilinn tímabilið 1960-61.