Pogba kom til Juventus frá Manchester United á frjálsri sölu í sumar. Hann hefur hins vegar ekkert spilað í vetur vegna hnémeiðsla.
Juventus-menn eru pirraðir yfir því að Pogba hafi ekki farið í aðgerð á hné því hann taldi að það ógnaði þátttöku hans á HM í Katar, þar sem hann spilaði svo ekki. Þá er lítil ánægja með hvernig Pogba ber sig að á samfélagsmiðlum. Hann er talinn óábyrgur og farinn að minna meira á áhrifavald en fótboltamann.
Samkvæmt ítölskum fjölmiðlum eru forráðamenn Juventus það pirraðir á Pogba að þeir íhuga að rifta samningi Frakkans eftir tímabilið. Talið er að hann gæti þá haldið til Bandaríkjanna að spila.
Pogba er einn launahæsti leikmaður Juventus en talið er að hann fái rúmlega sjö milljónir punda á ári í laun hjá félaginu. Bónusar eru ekki inni í þeirri jöfnu þannig að Pogba þénar í raun meira en sjö milljónirnar.
Pogba lék áður með Juventus á árunum 2012-16 og varð þá fjórum sinnum ítalskur meistari með liðinu og hjálpaði því að komast í úrslit Meistaradeildar Evrópu 2015.