Körfubolti

Kári Jónsson: Vorum kannski orðnir of þægilegir

Árni Jóhannsson skrifar
Kári Jónsson var stigahæstur á vellinum í kvöld
Kári Jónsson var stigahæstur á vellinum í kvöld Vísir/Bára Dröfn

Kári Jónsson sá alveg hag í því að hafa tapað fyrir Breiðabliki í kvöld þó að hann hafi náttúrlega verið svekktur með frammistöðuna. Leikurinn endaði 89-78 og þrátt fyrir 20 stig frá Kára þá áttu Valsmenn varla möguleika á móti Blikum í seinni hálfleik sérstaklega.

Kári var spurður að því hvort hann væri með útskýringu á reiðum höndum fyrir því að þeir hefðu verið jafn ólíkir sjálfum sér í seinni hálfleik eins og raun bar vitni.

„Nei ég er ekki með útskýringu. Við bara náðum ekki takti í seinni hálfleik en við vorum ekki frábærir í þeim fyrri heldur en munurinn var að við settum niður nokkur skot þá og náðum nokkrum stoppum. Svo voru þeir bara mikið betri í seinni hálfleik.“

Varnarleikur Blika var mjög sterkur í seinni hálfleik þar sem þeir stigu mjög hátt á Valsmenn sem varð til þess að gestirnir virkuðu hálf ráðalausir á löngum köflum í sóknarleiknum. Kom leikur Blika Kára á óvart?

„Það kom ekkert á óvar hjá Breiðablik. Þeir spila sinn bolta og gerðu það vel. Við vorum kannski bara að ofhugsa hlutina í kvöld og þetta er bara einn af þessum leikjum sem erfitt var að komast í takt. Við þurftum kannski á þessu að halda að fá smá spark í rassinn.“

Finnur Freyr Stefánsson sagði í sjónvarpsviðtali eftir leik að hans menn hefðu ekki lagt nógu mikið í púkkið til að vinna þennan leik og var Kári spurður að því hvort tilfinning hans væri svipuð þegar hann kom af velli.

„Já, það er góður punktur. Það er hægt að tína til mjög margt sem við hefðum getað gert mikið betur og hefði mátt fara betur. Þetta var ekki næstum því nógu gott hjá okkur og ekki það sem við viljum standa fyrir.“

Að lokum var Kári spurður að því hvort hann hefði einhverjar áhyggjur.

„Nei, í raun er ég bara sáttur við þetta. Fínt fyrir okkur að fá smá spark og fá menn aftur upp á tærnar. Við vorum kannski orðnir of þægilegir.“


Tengdar fréttir

Leik lokið: Breiða­blik - Valur 89-78 | Heima­menn vaknaðir af værum blundi

Eftir fjögur töp í röð sýndu leikmenn Breiðabliks úr hverju þeir eru gerðir þegar þeir lögðu Íslandsmeistara Vals með 11 stiga mun í Subway deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur í Smáranum 89-78 og segja má að Breiðablik sé vaknað af værum blundi. Sigurinn færir Blika líka í áttina að heimavallarréttinum en það eru þó fjögur stig í fjórða sætið úr því fimmta þar sem Blikar finna sig í dag eftir 14 umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×