Körfubolti

Jóhann Þór: „Það verða breytingar ef við náum þeim í gegn fyrir lok gluggans“

Sæbjörn Steinke skrifar
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur. Vísir/Vilhelm

„Ég er fyrst og fremst stoltur af mínu liði, við gáfum þeim bara hörkuleik. Það er svolítið að tala svona, auðvitað er ég svekktur eftir tap. En við vorum ákveðnir að labba stoltir héðan út og ég held að við getum borið höfuðið hátt, sagði Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur eftir tapið gegn Keflavík í kvöld.

„Þetta er jákvætt framhald eftir frekar slaka frammistöðu síðast, fullt af ljósum punktum og ég er þokkalega sáttur við þetta,“ sagði Jóhann Þór ennfremur. 

Jóhann sagði að það væri mjög augljóst hvað hefði fellt Grindvíkinga í seinni hálfleik. 

„Við sprungum, þeir tóku einhver sex sóknarfráköst á stuttum kafla og tvö þeirra hefði Ólafur alltaf náð ef hann hefði haft lappir í það. Hann var bara orðinn þreyttur.“ 

Keflavík var fljótt að komast í skotrétt í seinni hálfleik. Spilaði þreyta heimamanna þar inn í? 

„Nei, það var bara lína dómaranna.“ 

Ertu svekktur með línuna? 

„No comment.“ 

Jóhann sagði að Grindavík ætlaði sér að gera breytingar á leikmannahópi sínum fyrir gluggalok. 

„Það verða breytingar ef við náum þeim í gegn fyrir lok gluggans. Ég er ekki að fara að skipta um Kana. Sérðu Stjörnuna maður, þeir eru einhverjar tíu vikur að bíða eftir sakavottorði frá Þýskalandi fyrir sinn nýja leikmann út af þessum fáránlegu reglum.“ 

Er Jóhann ánægður með hvar liðið er statt í dag? Sigrarnir eru sjö, töpin eru sjö og liðið er í sjöunda sæti eftir fjórtán umferðir. 

„Já og nei. Það eru einhver ef og hefði, við hefðum getað verið búnir að vinna fleiri leiki. Við höfum tapað held ég þremur leikjum nokkuð sannfærandi. Miðað við allt og allt, róteringar á liðinu, breytingar og alls konar meiðsli og vesen er ég þokkalega sáttur þó maður vilji alltaf meira.“ 

Ef það kemur inn evrópskur leikmaður verða þá þeir Gaios Skordilis og Valdas Vasylius áfram hjá félaginu? 

„Það verður bara að koma í ljós. Við erum að skoða alla möguleika. Ég vil helst bara hafa þrjá erlenda leikmenn. Ég nenni ekki að vera pæla í því þegar ég er að skipta inn á hvort þessi þurfi að fara út af eða hinn. Við eigum eftir að setjast niður og taka ákvörðun um það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×