BPIV3 veldur vægri öndunarfærasýkingu í nautgripum og er landlæg víðast hvar í heiminum. Veikindi eru algegnust í kálfum sem ekki hafa fengið næg mótefni í gegnum brodd. Helstu einkenni eru hiti, nefrennsli og þurr hósti.
Til þess að komast að því hversu útbreidd veiran væri í íslenska nautgripastofninum voru rúmlega sjötíu sýni send til rannsóknar í haust. Niðurstaða þeirrar rannsóknar var að veiran finnst nú þegar í öllum landshlutum.
„Er því litið svo á að um sé að ræða dulda, landlæga sýkingu sem almennt er ekki að valda veikindum í nautgripum hérlendis. Miðað við umrætt tilvik virðist ákveðin ónæmisbæling vera forsenda þess að sýkingin magnist upp og fari að valda sjúkdómseinkennum,“ segir í tilkynningu á vef MAST.