Angjelin Sterkaj var dæmdur í sextán ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa banað Armando Beqirai fyrir utan heimili þess síðarnefnda í Rauðagerði. Landsréttur þyngdi dóminn yfir honum í 20 ár. Hinir þrír sakborningarnir í málinu, meintir samverkamenn Angjelins, voru sýknaðir í héraði en dæmd í fjórtán ára fangelsi í Landsrétti fyrir samverknað.
Öll fjögur óskuðu þau eftir leyfi til að áfrýja til Hæstaréttar - og Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari skilaði áliti sínu á beiðnum þeirra í byrjun desember.
Í álitinu kom fram að ríkissaksóknari telji að hugsanlega hafi skort lagaheimild til að dæma Angjelin til þyngri refsingar en sextán ára fangelsi. Vafi leiki á því hvort lögákveðnar aðstæður hafi verið fyrir hendi. Þá væri mikilvægt að Hæstiréttur skoðaði skilyrði um samverknað í málinu annars vegar og hlutdeild hins vegar.
Hæstiréttur tekur aðeins mál til meðferðar ef þau hafa skýrt fordæmisgildi eða verulegt almennt gildi. Samkvæmt heimildum fréttastofu leit Hæstiréttur til þess að það kynni að hafa verulega almenna þýðingu að fá skorið úr álitaefnum málsins fyrir réttinum.