João Félix byrjar lánstíma sinn hjá Chelsea ekki vel þar sem hann fékk beint rautt spjald í sínum fyrsta leik fyrir félagið. Til að bæta gráu ofan á svart þá tapaði Chelsea einnig leiknum gegn nágrönnum sínum í Fulham.
Það hefur ekkert gengið hjá Chelsea undanfarið og vægast sagt farið að hitna undir þjálfara liðsins, Graham Potter. Sá brá á það ráð að setja Felix beint í byrjunarliðið í von um að lánsmaðurinn gæti hjálpað liðinu að komast á beinu brautina.
Það tókst heldur betur ekki og Willian, fyrrverandi leikmaður Chelsea, koma heimamönnum yfir þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður, staðan 1-0 í hálfleik. Aðeins voru tvær mínútur liðnar af síðari hálfleik þegar miðvörðurinn Kalidou Koulibaly jafnaði metin fyrir gestina.
Á 58. mínútu fór Felix í glórulausa tæklingu og fékk að líta rauða spjaldið fyrir. Heimamenn nýttu sér liðsmuninn þegar Carlos Vinicius skoraði eftir sendingu frá samlanda sínum Andreas Pereira. Staðan orðin 2-1 og reyndust það lokatölur leiksins.
1 - Despite being sent off in the 58th minute, João Félix had the most shots (6), shots on target (4), successful take-ons (2) and won the most fouls (4) of any player on either side in Chelsea's 2-1 defeat to Fulham tonight. Eventful. pic.twitter.com/xxbu170M23
— OptaJoe (@OptaJoe) January 12, 2023
Fulham fer með sigrinum upp fyrir Liverpool og situr nú í 6. sæti deildarinnar með 31 stig að loknum 19 leikjum. Chelsea er í 10. sæti með 25 stig að loknum 18 leikjum.