Bandaríska knattspyrnukonan Brookelynn Paige Entz mun spila með HK í Lengjudeildinni í sumar. HK-konur voru sjö stigum frá því að vinna sér sæti í Bestu deildinni í fyrrasumar eftir að hafa verið í fallbaráttu deildarinnar sem nýliðar árið áður. Í fyrrasumar byrjaði HK-liðið mjög vel en missti dampinn í lokin þar sem liðið náði ekki að vinna leik í síðustu fjórum umferðunum.
Brookelynn varð bæði Íslands- og bikarmeistari á sínu fyrsta tímabili á Íslandi en hún kom til Vals í byrjun maímánaðar.
Brookelynn lék ellefu leiki í deildinni og þrjá leiki í bikarkeppninni. Eina markið hennar kom í stórsigri á Aftureldingu en hún átti líka eina stoðsendingu í Bestu-deildinni.
Brookelynn náði hins vegar ekki að festa sig í byrjunarliði Valsliðsins og kom inn á sem varamaður í tíu af fjórtán leikjum sínum með Val. Hún byrjaði þrjá fyrstu leiki sína á Hlíðarenda en var svo aðeins einu sinni í byrjunarliðinu eftir 1. júní.
Brookelynn lék á sínum tíma með sterku háskólaliði Kansas State en hún er væntanleg til landsins seinni part febrúarmánaðar og mun því fá nægan tíma til að kynnast nýjum liðsfélögum fyrir keppnistímabilið.