Varamaðurinn Said Benrahma skoraði eina mark leiksins er West Ham vann 1-0 sigur gegn Brentford í úrvalsdeildarslag.
Brentford er því úr leik, en West Ham er á leið í fjórðu umferð elstu og virtustu bikarkeppni heims, FA-bikarsins.
Þá vann Wrexham, sem er í eigu Hollywood-stjarnanna Ryan Reynolds og Rob McElhenney, óvæntan 4-3 sigur er liðið heimsótti B-deildarlið Coventry City.
Wrexham leikur í fimmtu efstu deild Englands, en liðið fór með 3-1 forystu inn í hálfleikshléið.
Ekki batnaði útlitið fyrir heimamenn í Coventry þegar Jonathan Panzo var rekinn af velli með rautt spjald snemma í síðari hálfleik fyrir brot innan vítateigs. Paul Mullin fór á punktinn fyrir gestina og breytti stöðunni í 4-1 og útlitið svart fyrir Coventry.
Þrátt fyrir að vera manni færri og þremur mörkum undir gáfust heimamenn ekki upp. Þeir skoruðu tvö mörk á seinustu tuttugu mínútum leiksins, en nær komust þeir ekki og niðurstaðan því ótrúlegur 4ö3 sigur Wrexham sem er á leið í fjórðu umferð FA-bikarsins.