Yung Nigo Drippin' er listamannsnafn hins tuttugu og sex ára gamla Brynjars Loga Árnasonar. Yung Nigo skaust fram á sjónarsviðið árið 2015 þegar hann gaf út plötuna Plús hús. Í kjölfarið gaf hann út plötunarnar Plús hús 2, Yfirvinnu og síðast EP plötuna Ungur ríkur flýgur vol. 1 árið 2019.
Sjá einnig: Hafnarfjörður eignast liðsmann í rappsenunni
Rapparinn hefur gjarnan verið kallaður „King of the goons“ en hann gaf einmitt út samnefnt lag árið 2019. Yung Nigo er dýrkaður og dáður af ungu kynslóðinni og voru því eflaust margir sem fögnuðu á miðnætti þegar platan Stjörnulífið lenti á Spotifly. Platan hefur verið í bígerð frá árinu 2019.
Þeir tónlistarmenn sem Yung Nigo fékk til liðs við sig á plötunni eru ekki af verri endanum en það eru nöfn á borð við Gísla Pálma, Birni, Izleif, Gvdjon, Siffa og ISSA. Drengirnir ætla að fagna plötunni með útgáfuteiti á Prikinu í kvöld klukkan níu.
Yung Nigo, Izleifur og Issi voru gestir Gústa B í Veislunni í gær. Þáttinn má hlusta á hér að neðan en viðtalið hefst á mínútu 49:38.