Alþjóðahandknattleikssambandið hefur sætt töluverðri gagnrýni vegna ákvörðunar þess að skylda leikmenn til Covid-skimana á meðan HM stendur. Björgvin hefur látið vel í sér heyra vegna reglnanna umdeildu og sendi meðal annars bréf á IHF vegna þeirra.
Björgvin birti tístið á Twitter þar sem hann óskaði eftir stuðningi, ekki síst frá leikmönnum á HM. Og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Þegar þetta er skrifað hafa 167 þúsund manns séð tíst Björgvins, 1430 manns líkað við það og 311 endurtíst því.
Þar á meðal eru nokkrir samherjar hans í íslenska landsliðinu, Miha Zvizej, fyrrverandi leikmaður slóvenska landsliðsins, og síðast en ekki tvær skærustu stjörnur danska landsliðsins.
Þetta eru þeir Niklas Landin, fyrirliði og markvörður danska liðsins, og leikstjórnandi þess, Rasmus Lauge.
I want to thank everyone for the support regarding my last tweet about the covid 19 restrictions in the next Handball WC! I just now sent IHF this letter here below. All retweets, especially if you are a player taking part in tournament, are well appreciated! Stay tuned pic.twitter.com/4djBw1VR6W
— Björgvin Páll Gústavsson (@BjoggiGustavs) January 4, 2023
Þrátt fyrir mikla gagnrýni situr IHF fast við sinn keip. Í yfirlýsingu sem sambandið sendi frá sér segir að það leggi mikla áherslu á að varðveita heilsu leikmanna.
„Við höfum sett upp prófunaráætlun sem á að beita á heimsmeistaramótinu til að tryggja að allir leikmenn séu heilir og geti spilað leiki. Handbolti er kraftmikill og hraður leikur með mikilli líkamssnertingu og því krefst þess að allir leikmenn séu við góða heilsu,“ segir í yfirlýsingunni.
„Þar sem einkennalausir smitberar veirunnar geta einnig smitað aðra leikmenn og hagsmunaaðila, eru fyrirhuguð próf áhrifaríkasta ráðstöfunin til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar og halda öllum hagsmunaaðilum öruggum og heilbrigðum.“
Björgvin og félagar hans í íslenska liðinu héldu til Þýskalands í dag. Þeir mæta heimamönnum í tveimur vináttulandsleikjum um helgina.
Landin, Lauge og félagar í danska landsliðinu rústuðu Sádí-Arabíu í vináttulandsleik í gær, 43-16. Danir eru í riðli með Belgum, Bareinum og Túnisbúum á HM.