Þetta kom fram í viðtali við Guðrúnu í Dagmálum. Greint var frá í Morgunblaðinu.
Í Dagmálum, þar sem Guðrún var gestur ásamt Bergþóri Ólasyni, þingmanni Miðflokksins, nefndi Bergþór að hann vonaðist til þess að Guðrún yrði frekar fjármálaráðherra en dómsmálaráðherra, líkt og til stæði í sumar.
Guðrún svaraði því þá til að hún vonaðist til að það gerðist fyrr og þá spurði Bergþór hvort það yrði fyrir þinglok.
„Loforðið var 18 mánuðum frá kosningum, það er í mars,“ svaraði Guðrún. Hún var þá spurð að því hvort það yrði endilega dómsmálaráðuneytið sem félli henni í skaut. „Ég geri ekki ráð fyrir öðru.“
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði eftir síðustu kosningar að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra myndi hætta á kjörtímabilinu og Guðrún taka við. Eftir að Jón gaf til kynna fyrr í vetur að breytingar kynnu að verða á þessari tilhögun var Bjarni spurður út í málið í Pallborðinu á Vísi.
„Ég var skýr með það frá upphafi og hef aldrei skipt um skoðun á því,“ svaraði Bjarni. Honum hefði hins vegar fundist Jón „í miðri á“ og með mörg verkefni á sinni könnu.
„Hann er að leggja fram á þinginu stór frumvörp, meðal annars um málefni flóttamanna eða hælisleitenda. Stendur í umræðu líka um breytingar á sýslumannsembættum og hefur fleiri stór verkefni á sinni könnu; er mikið í eldlínunni núna og stendur sig vel. Og mér fannst bara rangt að það væri stöðugt í umræðunni hvort hann væri ekki örugglega alveg að fara að hætta. Og vildi bara koma því út að það hefur í sjálfu sér ekkert breyst með Guðrúnu Hafsteinsdóttur; hún fer í ríkisstjórn. Getur verið að það breytist eitthvað með Jón Gunnarsson? Nei, það er í sjálfu sér ekkert sem bendir til þess en hver veit hvað gerist í pólitík í sjálfu sér?“
Þegar spurningin var ítrekuð, hvort Guðrún væri sannarlega að fara að taka við dómsmálunum, þá sagði Bjarni það standa til. Hann neitaði því að Jón yrði mögulega færður í annað ráðherraembætti.