Bankman-Fried hefur verið sakaður um söguleg fjársvik. Hann hefur verið ákærður það fyrrnefnda auk peningaþvættis og veitingu ólöglegra kosningaframlaga.
Fyrirtækið varð gjaldþrota í nóvember síðastliðnum en um svipað leyti bárust fregnir af því að viðskiptahættir þess væru til rannsóknar. Áhyggjur af stöðu fyrirtækisins leiddu til áhlaups og á þremur sólarhringum seldu viðskiptavinir rafmyntir sínar fyrir um 889 milljarða íslenskra króna.
Eignir FTX voru síðar frystar en fyrirtækið er sagt skulda fimmtíu stærstu kröfuhöfum búsins 441 milljarð íslenskra króna. Þá hafa viðskiptavinir fyrirtækisins stofnað til hóplögsóknar og freista þess nú að fá einhvern hluta eigna sinna til baka.
Fyrr í dag sagðist Bankman-Fried saklaus fyrir rétti í New York ríki og hefur dagur réttarhalda verið ákveðinn með fyrirvara en sá mun vera 2. október næstkomandi. Bankman-Fried er sagður ekki hafa ávarpað dómara þegar kom að því að lýsa yfir sekt eða sakleysi heldur hafi lögmannateymi hans séð um það. Þetta kemur fram í umfjöllun New York Times.
Þá er greint frá því að foreldrar Bankman-Fried hafi orði fyrir miklu aðkasti eftir fall FTX og hafi þeim borist yfirlýsingar frá fólki þar sem þess sé óskað að þau slasist ásamt öðru. Foreldrar hans eru bæði prófessorar við Stanford háskóla í Bandaríkjunum og skrifuðu undir skuldbindingu þess efnis að Bankman-Fried myndi mæta til réttarhalda í kjölfar þess að hann var látinn laus gegn himinhárri tryggingu.