Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá Hákon EA frá Grenivík, sem legið hefur bundinn við bryggju í Reykjavík frá 14. desember. Skipverjar voru að gera allt klárt í dag, fyrir kolmunnaveiðar, og stefnt að því að leysa landfestar í kvöld. Þegar við gripum skipstjórann Arnþór Pétursson í spjall var framundan löng sigling:
„Já, já. Suður undir skosku lögsöguna. Mér sýndist Færeyingarnir vera þar á veiðum. Þannig við við förum þangað bara. Galvaskir bara,“ segir Arnþór.

Aðeins þrír loðnufarmar hafa borist á land á vertíðinni þennan veturinn. Skipin Víkingur, Venus og Beitir lönduðu hvert sínum farmi fyrir miðjan desember, á Vopnafirði og Norðfirði.
Skipverjarnir á Hákoni leyndu því að ekki að þeir myndu frekar vilja vera á leið til loðnuveiða.
„Jú. Að sjálfsögðu. Að sjálfsögðu. En það er bara ekki nægur kvóti. Þannig að þá byrjum við í kolmunna. Og vonumst eftir meiri kvóta náttúrlega eftir næstu mælingu. Það kemur bara í ljós svo hvað verður úr því.“
-Hundfúlir yfir því að komast ekki strax í loðnuna?
„Jú, jú. Verðum við ekki að segja það. En svona er þetta bara,“ svarar Arnþór.

Og það sama átti við um hin íslensku uppsjávarskipin sem við höfðum spurnir af í dag. Þau voru öll á leið til kolmunnaveiða og ætla að spara sér takmarkaðan loðnukvóta þar til loðnan kemst í sitt verðmætasta ástand. En hvenær býst skipstjórinn á Hákoni við að geta farið í loðnuna?
„Vonandi í lok janúar. Ég held að það eigi ekki að fara í næsta leiðangur á loðnu fyrr en eftir 15. janúar. Þannig að það verður enginn meiri kvóti kominn fyrr en í fyrsta lagi í lok janúar.“
-Þannig að þið bara bíðið eftir að Hafró gefi eitthvað meira út?
„Já, þá förum við fyrr. Annars förum við svona 10. febrúar, myndi ég giska, til þess að ná í tonnin sem eru útgefin. Frysta á Japan og svo vonandi eitthvað í hrogn.“

Hákon EA á þátt í því að gera Grenvíkinga að kvótahæstu íbúum landsins og skipið er sagt svo stórt að það komist ekki að bryggju í heimahöfn.
-Getið þið lagt að bryggju þar?
„Nei. Það er bara þannig.“
-Af hverju eiga Grenvíkingar svona stórt skip?
„Þeir eru bara svo útsjónarsamir og duglegir,“ svarar skipstjórinn Arnþór Pétursson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: